Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

þar sem dvergar búa í steinum og vofur læðast hljótt

DÆGURÞRAS klukkan 1700 laugardaginn 1. mars í Draugasetrinu á Stokkseyri
Þau minna á fjallvötnin fagurblá - Um dægurlagatexta og samfélag á seinni hluta tuttugustu aldar
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur og Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða í Unun) fremja dægurþras

Kristín fjallar um dægurlög og texta sem þjóðin gerir að sínum, syngur á böllum í rútuferðum, í útilegum og fjallaskálum. Þessi lög eru í raun hennar eigin skáldskapur, það er fólkið í landinu sem ákveður hvað fellur þjóðarsálinni í geð, hitt hverfur, skýtur ekki rótum, jarðvegurinn hafnar þeim. Vinsældir dægurlaga og texta hljóta að gefa til kynna að þeir eigi erindi í sinn samtíma.Í fyrirlestrinum er leitast við að skilja hvaða samfélag það er sem birtist í vinsælum dægurlagatextum, hverjar eru hetjurnar, hver er staða konunnar, hverjar eru vonir og þrár þeirra sem sungið er um eða sungið til? Til að gestum gefist enn betra tækifæri og tóm til að átta sig á umræðuefninu syngur Heiða nokkur vel valin lög og leikur undir á gítar.

 


uppi í risinu sérðu lítið ljós, heit hjörtu, fölnuð rós

Bolzano - Feneyjar

Suðurendi Gardavatns og til Feneyja

Frá Desenzano er hjólað um sveitir, milli vínakra og annarra edenslunda. Síðdegist er komið til Veróna sem er frábær borg, útileikhús sem tekur 22.000 manns í sæti, nú er ekki lengur þrælum kastað fyrir ljón (að minnsta kosti ekki bókstaflega) heldur eru fluttar óperur og það er víst stórfenglegt. Stórsöngvarinn eini sanni hefur náttlega oft og mörgum sinnum verið langfrægasti söngvarinn á þessum stað. Eftir göngu framhjá arenunni er farið að húsi Julíu, mér finnst það mjög merkilegt - þar eru milljón og eitthundrað miðar límdir á alla veggi, á miðnum stendur til dæmis Giorgio elskar ??? einhverja ítalska mey. Miðar sem eru hengdir á þennan stað öðlast auðvitað aðra merkingu (í hugum gerendanna) en ef þeir væru hengdir á strætóskýli í úthverfi. Þarna hefur sagan tengingu við nútíðina og miðarnir segja hversu mikil ítök hún hefur í hugum fólks. Eftir að hafa heimsótt Júlíu og e.t.v. stolist til að hengja einn miða á vegg, ganga hjólreiðahetjur um verslunargötur og stræti áður en hópurinn safnast sama á Piazza Erde sem er elsti kryddmarkaður í Evrópur og þar fáum við okkur Aperol sem er typískur fordrykkur svæðisins. Eftir það skudnum við á einn af frábæru matsölustöðunum ....og þar er borðað hlegið og drukkið frameftir kvöldi. kv. KE


fötin skapa manninn, eða viltu vera púkó?

Þá birtast niðurstöður könnunarinnar, einkunnir og umsagnir um hvert ykkar sem höfðuð eitthvað til málanna að leggja. Þjóðfræðineminn nýbyrjaði játaði fúslega að hann hlusti ekki á textana - segi nú bara obbobbobb - svona náttlega segir maður ekki, textarnir eru málið monséri - sérstaklega hér á þessu bloggi.  Þjóðfræðineminn frá austlandi nær lét frá sér fara gáfulega athugasemd  um að textarnir fjalli um bjartsýni og að þetta reddist. sú austlenska hefur greinilega mætt á alla þá fyrirlestra sem máli skipta í sínu námi og hlýtur þar með ágætiseinkunn. Fjóla sem fegurst er kvenna í úthverfinu í suðri - gat komið þvi´að að henni fannst ekki að vöðvatröllin fögru ættu skilið öll þessi 17 atkvæði sem þeir fengu úr mínum síma. Þarna þykir mér stöðvarfjarðardrósinni brugðið - hvað varð af því mikla skynbragði sem þú barst á karlmennsku hér á árum áður? Ertu ekki búin að vera of mikið inni á þessum æfingaplássum? Nú - yfirkvittarinn kemur með aðra getraun (sem er ekki við hæfi) - og telur líka að textarnir fjalli um ást ER ÞAÐ ég held ekki. Ég held að þær Áslaug og Anna hafi hitt naglann á höfuðið - Við erum hress, við erum andskoti hress, Áslaug þú færð 10 -. Anna fær 9,5 - bara af því að ég þekki Áslaugu .... svona er nú farið að þessu. Drengurinn  - sem gerði það sem hann gat til að ég fengi tíu - fallega hugsað og góð tillaga, fjör en ekki mör, og óhamingjusama ást - ókey - það passar mér og mínum kenningum bara miklu betur að textarnir séu um að við séum hress - þannig að ég tek þau svör sem mér passa og hampa þeim. Er þetta ekki typískt????

alveg typískt júróvisjonlag

Hér er alvöru fyrirspurn til allra þeirra fjölmörgu sem lesa þessa merku síður. Það er siðferðileg skylda þín að svara þessari spurningu og hana nú og hér er hún: Um hvað heldur þú að textar íslenskra júróvisjonlaga fjalli? Hvað dettur þér fyrst í hug? Þú mátt auðvitað nefna ýmislegt - og takið eftir þessu; ekkert svar er rangt - öll svör eru rétt og háar einkunnir eru í boði. Kær kveðja og hlakka til að lesa allt sem þú skrifar. Kristín


ég ætla aldrei, aldrei, aldrei aftur að vinna í Ísbirninum

Eftir að langstórvirkasti kvittari síðunnar lét með hógværð mikilli í ljós efasemdir um slétt og fellt lýsingar á hjólaferðum um týrólskar slóðir hér í síðustu færslu, skal hér með satt og rétt vera að stundum er ekki allt slétt og stundum er alls ekki allt fellt. Stundum týnist fólk, (sbr. eldgamlar færslur) en þó aðallega sumir skagamenn, stundum kaupir fólk lönd og syndir í gardavatninu  og aftur þó aðallega skagamenn. Stundum stela ungar galvaskar hjólreiðakonur öllu steini léttara og hreykja sér af - svo að fararstjórinn getur lent í hettumáfunum ítölsku og þarf jafnvel að nota ALLA sína töfra. Stundum brjálast í meðreiðarsveinar í undirgöngum og neita að borga sektir og setja ALLT  á hinn endann. Stundum er hjólfákum  stolið og þá allt í einu eru ENGAR löggur. (Ef þú vilt sjá skýringar á þessum skuggalegu vísunum verður þú að lesa allar fyrri færslur, góða skemmtun)  En óttist eigi, fararstjórinn er með yður öllum og þótt þið hjólið um dimman dal ... Svo þú sérð það, kæri kvittari, að engin er hjólaferð án þyrna EN SAMT SVO ÓGISSLEGA GAMAN..kvke

bolzano - feneyjar

Ég er farin að hlakka umtalsvert til sumarsins. Að hjóla niður með ánni Adige - horfa á hvít fjöllin klædd jólatrjám milli fjalls og fjöru. Fá besta ís í heimi á torginu í Trento. Fara út að borða með hjólafólkinu sem er án gríns skemmtilegasta og besta fólk í heimi. Vakna í Trento, kaupa vatn og ávexti í kaupfélaginu, hjóla áfram niður með ánni, yfir heiðina og stoppa á brekkubrún og horfa yfir norðurenda Gardavatnsins þar sem seglbretti og bátar eru eins og mávar á vatninu. Hjóla hratt niður brekkuna og um borð í skemmtiferðaskútuna, setjast upp á sólbekk, fá sér kampavín og horfa á þorpin beggja vegna vatnsins, lenda í Desenzano (hitta söngvarann eina sanna) ganga um þröngar göturnar, fara aftur út að borða með hjólahópnum. Get ekki beðið...kv. KE

fundir og mannfagnaðir

Merkilegt orð ,,mannfögnuður" ... gæti alveg eins þýtt að maður eða kona fagni einum manni. En ég er á mikilli funda- og mannfagnaðarherferð þessa dagana. Nýkomin frá Akureyri þar sem við Heiða sem er unun frömdum dægurþras, sagði frá Smáraskólaverkefninu (ef þú veist ekki hvað ég á við þá er ég undrandi) á myndakvöldi hjá Ferðafélaginu í síðustu viku og aftur í hádeginu í dag hjá á hádegisfundi rótarýklúbbs nokkurs. Svo er ég í kvöld að fara að kynna hjólaferðir á Ítalíu hjá Fjallahjólaklúbbnum....Mér finnst þetta skemmtilegt allt saman, hvað með sínu sniði. Mér finnst mjög gaman að segja frá hálendisferðaverkefni Smáraskola en það er þó tregablandið þessa dagana af því ég fer ekki í fleiri ferðir með þessum frábæru krökkum sem í þeim skóla búa sig undir lífið. En, auðvitað tekur annað við --- stundum þarf að sparka manni yfir brúna. En svo tökum við Alda á móti öllum vinum og vandamönnum, bæði fyrrverandi og tilvonandi í Cintamani búðinni á Laugaveginum á laugardaginn. Kíktu við og fáðu þér kaffi og sjáðu myndir frá Ítalíu .... og drífðu þig svo til Ítalíu að hjóla. kv. KE

bondsjornó

Nú er úti veður mjög leiðinlegt og ég efast um að jafnvel Grímur biðji sér konu í þessari tíð. Mér skilst líka að ekki sé Mjallhvít blessunin bara brjáluð út í stjúpuna heldur er hún orðin hundleið á því að allir séu alltaf núa henni lauslæti um nasir. Hún hafi ekki verið að dingla þarna með öllum þessum dvergum, kannski einum eða þremur en ekki sjö. Svona getur þjóðfræðin gersamlega farið með mann í rugl. Þorrablót þjóðfræðinema var haldið síðasta föstudagskvöld og ég held því fram að fátt sé eins skemmtilegt. Þjóðfræðinemar eru besta og skemmtilegasta fólk og þarna var stiginn vikivaki af tærri snilld - einn þjóðfræðikennarinn kvað rímur, mjööög langar og hikaði aldrei. Ég hef aldrei getað lært nokkra vísu utanað svo ég var full lotningar. Fyrirsögnin er svona vegna þess að ég ætlaði að tjá mig um Ítalíu - enda veðrið til þess - en það bíður betri tíma. Kv. KE


mér finnst lífið eitt allsherjar djók

Nei, segi nú svona bara. En mér hefur oft þótt frábært hversu mikill húmor er í kringum okkur. Baggalútur, sprengihöllin, Laddi, Tvíhöfði og allt það lið. Það er líka ótrúlegt allt þetta húmorefni í sjónvarpinu - fóstbræður, strákarnir og stelpurnar, skaupið og spaugstofan, og næturvaktin. Svo er nú öll fyndnin sem fram fer manna á milli. Húmor er eins og við vitum merkilegt, en því miður vanrækt rannsóknarefni - Hann er út um allt, manna á milli og í umhverfinu öllu. Dönsku þættirnir, Trúðurinn, er náttlega eitt enn ótrúlegt fyrirbærið - þar er húmorinn kominn á eitthvert allt annað svið - viðtalið við þá félaga í Kastljósinu var merkilegt - því að lengi var því haldið fram að ekki væri hægt að gera grín að barnaníðingum en þeir treysta sér í það. Það er svo sem vitað að það sem veldur kvíða, veldur líka hlátri, og hvað er kvíðvænlegra en...Jæja - vesgú - heil færsla og ekki minnst á hjólfákinn. Kannski að ég skrifi eins og einn brandara t.d. um mann sem datt á hjóli - gerir sig alltaf. kv. K

 

 


Ég er ekki bara hjólanörd - ég er margfaldur nörd

Þeir sem villast hér inn gætu mjög auðveldlega haldið að ég geri ekki annað en að hjóla um bæinn og Ítalíu og fjöllin og Austurríki. Það er bara alls ekki þannig - ég hef líka hjólað í Baðhúsi allra landsmanna - reyndar hætt. Svo er ég að gera margt, mjög margt, mjög skemmtilegt. Núna í augnablikinu er ég t.d. að lesa bókina ,,Rokksaga Íslands" eftir Gest Guðmundsson. Ótrúlega skemmtileg bók - og svo að henni lokinni mun ég lesa bókina ,,Eru ekki allir í stuði" eftir Doktor G. - meðfram þessu hlusta ég á íslensk dægurlög og ligg í djúpum pælingum um textana - syng samt ekki með - stundum syng ég á hjólinu en þá bara með Presley. Mér finnst t.d. að ég nái ,,Crying in the Chapel" mjög vel í rigningu. Þá líka sjást ekki tárin sem flóa bæði af aðdáun á minni eigin rödd og tjáningu Elvisar á hinni óendanlegu sorg og gleði. Mig langar að benda ykkur á fyrirlestur Rósu Húnadóttur um íslensk sjómannalög - sem haldinn verður í húsi sögufélagsins við Fischersund á miðvikdagskvöld kl. 20 - kv. KE

Næsta síða »

Höfundur

Kristín Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir

Um bloggið

Kristín Einarsdóttir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • fen - fló og barnabörn 186
  • ...e_en_us_320
  • ...ter_edition
  •  b 2 Feneyjar - Flórens (88)
  • ...s_88_522487

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband