Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Jú, það er hægt

segir bandaríski blökkumannsleiðtogaefnið og það hugsaði ég einmitt á hjólfáknum í morgun þar sem ég sveif yfir flughálar svellbreiðurna og fákurinn lét eins vel að stjórn og væri hann undan Blesa frá Stóru-Gröf sem var landsþekktur gæðingur um og eftir miðja síðustu öld. Ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé betra að hafa Leonard Cohen í eyrunum frekar en Bitlana þegar færðin er svona - það er nefnilega rólyndið sem gildir og í því er ég alger sérfræðingur. Ekkert fær haggað mér nema ef veðrið er vont, bílstjórar eru með frekju, ég er of sein, eða að það sé ekki laugardagur. En að hjólaferðum erlendis - nú fer að styttast í næstu kynningu í Cintamani búðinni frábæru á Laugaveginum. Það versta er að þegar ég er þar heilan dag kaupi ég alltaf ótrúlega mikið sem ég vissi ekki að mig vantaði. En semsagt kynningin verður þann 23. þessa mánaðar og mér finnst að þið ættuð að koma, gott kaffi, fagrar myndir og við Alda erum mjög hógværar í lýsingum okkar á þessum frábæru ferðum. Guð verið með ykkur - kv. KE

Doktorsgráðan í Róm

Ég held að nú sé svo algerlega tímabært að segja frá hinu margrómaða þriggja ára plani sem endar í Róm með mikilli viðhöfn. Þessi hugmynd gerjaðist síðasta sumar og er nú fullmótuð og mun lítið ef nokkuð breytast. Þannig er að sá eða sú sem hjólar sitt fyrsta sumar frá Bolzano í Norður-Ítalíu (sjá ferðalýsingu) og til Feneyja, næsta sumar frá Feneyjum til Flórens og þriðja sumarið frá Flórens til Róm mun fá þar hina æðstu gráðu sem hægt er að öðlast í hjólreiðum um suðrænar slóðir. Við athöfnina mun aðili þessi krýndur  hinum ferhyrnda hatti sem annars bara útlendingar fá þegar þeir hafa lokið einhverju gráðum. Hjóladoktorinn mun auk þess klæðast smekklega hönnuðum hjólabúningi, fá diplomaskjal til að hengja upp í stofunni heima. Ýmislegt annað verður á döfinni sem nánar verður tilgreint siðar. Eins og glöggir lesendur sjá er ferðalýsing á þriðja og erfiðasta hluta leiðarinnar ekki kominn á vef www.uu.is en hann kemur fyrr en varir.  kv. KE


...jæja Jobbi, er þetta ekki orðið gott.

Ég hjólaði í dag sem leið lá meðfram Sæbrautinni vestur í langæðstu menntastofnun landsins. Þetta er eins og allir vita langflottasta hjólaleið höfuðborgarsvæðisins, Akranes langt í burtu, enginn fótboltavöllur sjáanlegur, sjórinn og mávarnir sem lifðu af síðustu styrjöld og miskunnarlausar skotárásir úr launsátri laugardagskvöldstjórnandans, svamla venjulega glaðir og áhyggjulausir í vestanblænum. En nú var 30 cm. þykkt hálffrosið klakalag á allri gang/hjólastéttinni og hjólfákurinn á glænýjum nagladekkjunum hafði algerlega sjálfstæðan vilja. Mávarnir horfðu, horaðir  til himins og báðu um betri tíð.  Verst var þó að á undan mér hljóp eitt lítið mannkríli og hann hljóp mun hraðar en ég hjólaði. En, þetta var samt frábært, trúið því, og þið sem eruð að velta fyrir ykkur að fá ykkur hjól, það er einmitt núna - best að gera allt strax. Þegar alvörupabbi Sússa fer að láta hlýna og skína þá ætla ég að hjóla upp Árnesbrekkuna, Kjalarnesið, Hvalfjörðinn, á Akranessskagann og aftur heim á hálfum degi, fyrir kaffi. ke

og sumarið nálgast og hjólin leika við kvurn sinn fingur

Nú finnst mér að tími sé kominn til að fara að blogga um hjólaferðir aftur - Við Alda vorum með hjólaferðakynningar um helgina og fjöldi manns kom sá og skráði sig. Mér sýnist að framboðið á hjólaferðum Úrvals-Útsýnar sé nú orðið þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Það er líka frábært hversu margir koma í svona ferðir ár eftir ár og segir það sitt um hversu frábær ferðamáti þetta er. Hvað getur svo sem verið betra en að hjóla í  stórkostlega landslagi, borða frábæran mat og vera með góðu fólki. Sjálf keypti ég mér nagladekk á minn nýja hjólfák (sjá fyrri færslur) og hef hjólað um Reykjavíkurborg og í næstu sveitirfélög í allan vetur. Nagladekki veita mikið öryggi í hálkunni og gera manni mögulegt að hjóla þótt snjór sé á gangstéttum og götum- samt sem áður væri ég til í að fara að fá auðar götur og gangstéttar, mér finnst eiginlega nóg komið. Það væri líka ekki slæmt að vera á suðrænni slóðum á stuttubuxum og ermalausum - en þess er svosem ekki langt að bíða. Kv. Kristín


« Fyrri síða

Höfundur

Kristín Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir

Um bloggið

Kristín Einarsdóttir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • fen - fló og barnabörn 186
  • ...e_en_us_320
  • ...ter_edition
  •  b 2 Feneyjar - Flórens (88)
  • ...s_88_522487

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband