Færsluflokkur: Bloggar

Fagurt syngur svanurinn um sumarlanga tíð

Feneyjar - fullyrði ég að er merkilegasta borg í heimi, eins og allir vita eru þar engir bílar, fólk ferðast á bátum af öllum gerðum, slökkviliðið og löggan ferðast um á bátum, ef einhver er að flytja þá er sófasettinu og ískápnum troðið ofan í bát og siglt í nýju íbúðina, svo eru vatnastrætóarnir sem ösla eftir Grand Canal og stoppa á öllum hinum fjölmörgu stoppistöðum, hleypa inn hópi fólks og aðrir fara af bátnum, gondólar sigla og það er víst ótrúlega erfitt og mikil lagni sem þarf við að stýra gondól og gengur sú kunnátta í erfðir, faðir kennir syni. Litið, ef nokkuð um konur, held ég. Síkin eru hrein, sést ekki kókdós á floti, ótrúlegt af því að til Feneyja koma fjórtán milljón ferðamenn á hverju ári. Í Feneyjum eru brýrnar jafnmargar og götuhindranirnar í Kópavogi - út um allt og allstaðar og allstaðar er fólk. Á Markúsartorgi er fólk að gefa dúfum og láta taka af sér mynd, fólk situr á rándýrum kaffihúsunum og hlustar á lifandi músik, skoðar grímur sem eru í öllum búðum og hjá milljón götusölum fást grímur. Feneyjar eru ferðamannastaður og við sem komum þar erum líka ferðamenn - það er, finnst mér, hluti af sjarma Feneyja að þar er fólk út um allt, Feneyjar eru eins og að vera inni í leikriti, sviðið eru kanalar og síki, bátar og eldgömul hús, leikararnir eru ferðamenn frá öllum heiminum en ef maður verður þreyttur á leikritinu og vill komast í hlér,  er auðvelt að taka vatnastrætó út á Lído, finna sér þar sólbekk við hafið, fá sér drykk og hlusta á öldurnar. Ég get ekki beðið - mér finnst allir staðir betri eftir að hafa komið þar áður - þarf einhvernveginn að kynnast staðnum - eins og til dæmis Laugveginum - ég held ég verði fljótlega að tjá mig um Laugaveginn. Ég bíð eftir að einhver biðji mig um að skipuleggja Laugavegsgöngu og´ég mun segja já eins og skot.  lovjúol Stína

liðið er hátt á aðra öld,enn mun reimt í Gróttu

Góðan og blessaðan daginn!

Jú, kæri kvittari, ég er komin úr Gróttu og ekki olli ferðin sú mér vonbrigðum. Við þjóðfræðinördarnir hittumst í ,,dóplundinum" mjög seint á föstudagskvöldi, stikluðum á steinum yfir eiðið, af því einn nördinn gat ekki beðið eftir að fjaraði út, kolniðamyrkur, vasaljós og létt snjókoma, opnuðum húsið heitt og notalegt, brauð og súkkulaðirúsinur, bjór og rauðvín, ostur og flatkökur, spjall, fliss, hjýja á milli fólks sem ég veit að þekkist ekki í nokkru öðru samfélagi, um miðja nótt út að ganga að vitanum himinháum, lýstum upp snjókomuna, hvítt brim, kolsvartur sjór, klappir og þang, halarófuganga meðfram steingarðinum að naustinu, smáhræðsla en ekki mikil, inn í hús, sofa, vakna, morgunverður, spjall (lágt), fórum upp í vitann, hittum frægan mann og buðum honum með okkur í vitann, doltið stoltar af yfirburðum okkar með lykilinn að vitanum, maðurinn sagði okkur frá merkilegri þjóðfræðirannsókn sinni í annarri heimsálfu, kvöddum Gróttu, kvöddumst og aldrei verður þessi ferð af okkur tekin.....


undir Gróttutöngum

það gerist svo margt á hverjum degi að ef ég ætti að tjá mig um það mundi ég ekki hafa tíma til að taka þátt í öllu sem ber fyrir mig á hverjum degi allt svo gaman ég er svo mikill lukkunnar pamfíll að það er bara ótrúlegt svo þekki ég svo margt frábært fólk á bara ekki orð yfir þetta allt saman. En í dag var ég t.d. að segja frá útivistarverkefninu (sem hingað til hefur verið kennt við skóla einn í kópavogi) á rótarýfundi á seltjarnarnesi - ferlega skemmtilegt- og ég upplifi alllar þessar ferðir um leið og ég segi frá þeim.... allir áhugasamir og jákvæðir með afbrigðum. Svo er nú aðalmálið, ég er að fara útí Gróttu að gista þar með nokkrum frábærum þjóðfræðinemum, og hlakka mjög mikið til. Við ætlum að fá okkur rauðvín, borða osta og brauð og rabba, engir tala eins mikið og þjóðfræðinemar og sumir kennarar af því það er svo gaman í þjoðfræðinni og innan hennar rúmast til dæmis allt slúður heimsins af því við getum alltaf sett það í þjóðfræðilegt samhengi - enginn brandari er of ljótur af því hann er náttúrulega partur af þjoðfræðinni..... er þetta ekki frábært? kv.KE

skál fyrir skálinni bræður

maðurinn biður um óskalag og ekki skal ég vinna mér léttara verk og það er lagið ,,Við siglum"

þetta er svoooo flott og Alfreð Clausen er alveg nákvæmlega eins og Johnny Cash -  allavega í þessu stórkostlega lagi. Heiða syngur þetta eins og hún sé frú Cash en bara miklu betur. Mann þyrstir til sjós, hann er saltur, því súpum vér fastar á, vér ást vora spörum til einnar nætur, sem eldur hún logar við hjartarætur, því kyssum við heitar en hinir - Hvað varð af þessum karlmönnum???? hvort er nú flottara þessi karlmannlegi söngur eða; Geta pabbar ekki grátið? eða "Mér finnst rigningin góð,, Ég hef um nokkurt skeið verið ákveðin í að lagið ,,Í landhelginni" verði sungið i jarðarförinni minn en ég er að hugsa um að skipta um skoðun og fá Alfreð - enda mundi ég þá e.t.v. hitt´ann fljótlega -skora ég nú á alla vini nær og fjær að finna þetta lag og dansa svo vals á síns eigins eldhúsgólfi. Þetta er eiginlega nýtt lag - amk ef maður miðar við höfðatölu og sjálfstæði Íslendinga.  En hvað með getraun síðustu færslu? soffía ertu alveg búin á því þarna i austlandi nær. ...? kv. ke


því að höf þeim lúta sem storka þeim

Svona líður mér einmitt þegar ég sigli á vatnastrætóum Feneyjaborgar - krappur sé leikur við ólgandi mar - Eftir að hafa hjólað frá Veróna - hjólaleiðin frá Veróna til Feneyja er líka ævintýrum prýdd. Þar er eina brekka leiðarinnar, þriggja kílómetra löng en ekki brött. Svo skemmtilega vill til að í miðri brekkunni tökum við snarpa hægri beygju og hjólum heim til vínbónda nokkurs, sem kynnir okkur fyrir framleiðslu sinni og til að vita hvað maðurinn er að tala um verða náttlega allir að smakka. Það sem mér finnst þó eftirminnilegast frá þessari vínsmökkun hjá hinum vingjarnlega ítalska vínbónda er að við athæfi þetta sitjum við úti á brekkubrún og horfum yfir vínakrana og næstu bæi og þorp. Eftir þessa góðu heimsókn eru allir yfirmáta hressir og brekkan lítið mál. ´Þegar upp er komið er stoppað í hádegisverði og þaðan er aflíðandi brekka niður að borginni Vicensa sem er eitt stórt arkitektúrsævintýri. Frá Vicensa hjólum við áfram i austurátt og komum til Feneyja en þó ég hafi ætlað að skrifa um Feneyjar ætla ég að láta hér staðar numið að sinni. Þættinum er lokið, verið þið sæl .....abbbabbbabb - hvað heitir lagið og hver syngur......soffía koma nú....þú getur þetta.


uppáhaldslagið og textinn -

 Hvað er að manninum að setja þetta blað - syngja og setja á plötu. Það er líka merkilegt hvað mér finnst þetta frábært - get hlustað að þetta tuttugu sinnum og finnst þetta alltaf jafnskemmtilegt. Ég held að ef þetta hefði verið í boði hefði Friðrik og Regína ekki verið að fara í ferðalag - ég hefði allavega kosið oftar en 17 sinnum.  Sá sem segir að þetta sé leiðinlegt, tapar - sá sem er sammála mér vinnur

Hátíðlegt er heimsins slekt

heimskt og leiðitamt

svo gáfnatregt og lúalegt

svo lúmskt og íhaldssamt

Mjög er normalt mannfólkið

og mett af bábiljum

Svo þungbúið er þetta lið

og þröngsýnt með afbrigðum

Samt er nákvæmlega sama hvert ég fer

já sama hvar ég er, allstaðar er fólk

Hvar í veröldinni, hvar í heimi hér

ei mannlaus staður, allstaðar er fólk

Þar þarf alltaf einhver fjandi að vera á ferð

uppi á öræfum, í óbyggðum, í frumskógum

og allstaðar er fólk

Fúlmennska og fáfræði

fordómar og heift

og siðprýði og sljóleiki 

í sálu fólks er þreytt 

Já mannfólkið er lýgilegt

lýgið falskt og bælt

svo ári tregt og alvarlegt

svo öfundsjúkt og spælt

 


þar sem dvergar búa í steinum og vofur læðast hljótt

DÆGURÞRAS klukkan 1700 laugardaginn 1. mars í Draugasetrinu á Stokkseyri
Þau minna á fjallvötnin fagurblá - Um dægurlagatexta og samfélag á seinni hluta tuttugustu aldar
Kristín Einarsdóttir þjóðfræðingur og Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða í Unun) fremja dægurþras

Kristín fjallar um dægurlög og texta sem þjóðin gerir að sínum, syngur á böllum í rútuferðum, í útilegum og fjallaskálum. Þessi lög eru í raun hennar eigin skáldskapur, það er fólkið í landinu sem ákveður hvað fellur þjóðarsálinni í geð, hitt hverfur, skýtur ekki rótum, jarðvegurinn hafnar þeim. Vinsældir dægurlaga og texta hljóta að gefa til kynna að þeir eigi erindi í sinn samtíma.Í fyrirlestrinum er leitast við að skilja hvaða samfélag það er sem birtist í vinsælum dægurlagatextum, hverjar eru hetjurnar, hver er staða konunnar, hverjar eru vonir og þrár þeirra sem sungið er um eða sungið til? Til að gestum gefist enn betra tækifæri og tóm til að átta sig á umræðuefninu syngur Heiða nokkur vel valin lög og leikur undir á gítar.

 


uppi í risinu sérðu lítið ljós, heit hjörtu, fölnuð rós

Bolzano - Feneyjar

Suðurendi Gardavatns og til Feneyja

Frá Desenzano er hjólað um sveitir, milli vínakra og annarra edenslunda. Síðdegist er komið til Veróna sem er frábær borg, útileikhús sem tekur 22.000 manns í sæti, nú er ekki lengur þrælum kastað fyrir ljón (að minnsta kosti ekki bókstaflega) heldur eru fluttar óperur og það er víst stórfenglegt. Stórsöngvarinn eini sanni hefur náttlega oft og mörgum sinnum verið langfrægasti söngvarinn á þessum stað. Eftir göngu framhjá arenunni er farið að húsi Julíu, mér finnst það mjög merkilegt - þar eru milljón og eitthundrað miðar límdir á alla veggi, á miðnum stendur til dæmis Giorgio elskar ??? einhverja ítalska mey. Miðar sem eru hengdir á þennan stað öðlast auðvitað aðra merkingu (í hugum gerendanna) en ef þeir væru hengdir á strætóskýli í úthverfi. Þarna hefur sagan tengingu við nútíðina og miðarnir segja hversu mikil ítök hún hefur í hugum fólks. Eftir að hafa heimsótt Júlíu og e.t.v. stolist til að hengja einn miða á vegg, ganga hjólreiðahetjur um verslunargötur og stræti áður en hópurinn safnast sama á Piazza Erde sem er elsti kryddmarkaður í Evrópur og þar fáum við okkur Aperol sem er typískur fordrykkur svæðisins. Eftir það skudnum við á einn af frábæru matsölustöðunum ....og þar er borðað hlegið og drukkið frameftir kvöldi. kv. KE


fötin skapa manninn, eða viltu vera púkó?

Þá birtast niðurstöður könnunarinnar, einkunnir og umsagnir um hvert ykkar sem höfðuð eitthvað til málanna að leggja. Þjóðfræðineminn nýbyrjaði játaði fúslega að hann hlusti ekki á textana - segi nú bara obbobbobb - svona náttlega segir maður ekki, textarnir eru málið monséri - sérstaklega hér á þessu bloggi.  Þjóðfræðineminn frá austlandi nær lét frá sér fara gáfulega athugasemd  um að textarnir fjalli um bjartsýni og að þetta reddist. sú austlenska hefur greinilega mætt á alla þá fyrirlestra sem máli skipta í sínu námi og hlýtur þar með ágætiseinkunn. Fjóla sem fegurst er kvenna í úthverfinu í suðri - gat komið þvi´að að henni fannst ekki að vöðvatröllin fögru ættu skilið öll þessi 17 atkvæði sem þeir fengu úr mínum síma. Þarna þykir mér stöðvarfjarðardrósinni brugðið - hvað varð af því mikla skynbragði sem þú barst á karlmennsku hér á árum áður? Ertu ekki búin að vera of mikið inni á þessum æfingaplássum? Nú - yfirkvittarinn kemur með aðra getraun (sem er ekki við hæfi) - og telur líka að textarnir fjalli um ást ER ÞAÐ ég held ekki. Ég held að þær Áslaug og Anna hafi hitt naglann á höfuðið - Við erum hress, við erum andskoti hress, Áslaug þú færð 10 -. Anna fær 9,5 - bara af því að ég þekki Áslaugu .... svona er nú farið að þessu. Drengurinn  - sem gerði það sem hann gat til að ég fengi tíu - fallega hugsað og góð tillaga, fjör en ekki mör, og óhamingjusama ást - ókey - það passar mér og mínum kenningum bara miklu betur að textarnir séu um að við séum hress - þannig að ég tek þau svör sem mér passa og hampa þeim. Er þetta ekki typískt????

alveg typískt júróvisjonlag

Hér er alvöru fyrirspurn til allra þeirra fjölmörgu sem lesa þessa merku síður. Það er siðferðileg skylda þín að svara þessari spurningu og hana nú og hér er hún: Um hvað heldur þú að textar íslenskra júróvisjonlaga fjalli? Hvað dettur þér fyrst í hug? Þú mátt auðvitað nefna ýmislegt - og takið eftir þessu; ekkert svar er rangt - öll svör eru rétt og háar einkunnir eru í boði. Kær kveðja og hlakka til að lesa allt sem þú skrifar. Kristín


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristín Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir

Um bloggið

Kristín Einarsdóttir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • fen - fló og barnabörn 186
  • ...e_en_us_320
  • ...ter_edition
  •  b 2 Feneyjar - Flórens (88)
  • ...s_88_522487

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband