ég ætla aldrei, aldrei, aldrei aftur að vinna í Ísbirninum

Eftir að langstórvirkasti kvittari síðunnar lét með hógværð mikilli í ljós efasemdir um slétt og fellt lýsingar á hjólaferðum um týrólskar slóðir hér í síðustu færslu, skal hér með satt og rétt vera að stundum er ekki allt slétt og stundum er alls ekki allt fellt. Stundum týnist fólk, (sbr. eldgamlar færslur) en þó aðallega sumir skagamenn, stundum kaupir fólk lönd og syndir í gardavatninu  og aftur þó aðallega skagamenn. Stundum stela ungar galvaskar hjólreiðakonur öllu steini léttara og hreykja sér af - svo að fararstjórinn getur lent í hettumáfunum ítölsku og þarf jafnvel að nota ALLA sína töfra. Stundum brjálast í meðreiðarsveinar í undirgöngum og neita að borga sektir og setja ALLT  á hinn endann. Stundum er hjólfákum  stolið og þá allt í einu eru ENGAR löggur. (Ef þú vilt sjá skýringar á þessum skuggalegu vísunum verður þú að lesa allar fyrri færslur, góða skemmtun)  En óttist eigi, fararstjórinn er með yður öllum og þótt þið hjólið um dimman dal ... Svo þú sérð það, kæri kvittari, að engin er hjólaferð án þyrna EN SAMT SVO ÓGISSLEGA GAMAN..kvke

bolzano - feneyjar

Ég er farin að hlakka umtalsvert til sumarsins. Að hjóla niður með ánni Adige - horfa á hvít fjöllin klædd jólatrjám milli fjalls og fjöru. Fá besta ís í heimi á torginu í Trento. Fara út að borða með hjólafólkinu sem er án gríns skemmtilegasta og besta fólk í heimi. Vakna í Trento, kaupa vatn og ávexti í kaupfélaginu, hjóla áfram niður með ánni, yfir heiðina og stoppa á brekkubrún og horfa yfir norðurenda Gardavatnsins þar sem seglbretti og bátar eru eins og mávar á vatninu. Hjóla hratt niður brekkuna og um borð í skemmtiferðaskútuna, setjast upp á sólbekk, fá sér kampavín og horfa á þorpin beggja vegna vatnsins, lenda í Desenzano (hitta söngvarann eina sanna) ganga um þröngar göturnar, fara aftur út að borða með hjólahópnum. Get ekki beðið...kv. KE

fundir og mannfagnaðir

Merkilegt orð ,,mannfögnuður" ... gæti alveg eins þýtt að maður eða kona fagni einum manni. En ég er á mikilli funda- og mannfagnaðarherferð þessa dagana. Nýkomin frá Akureyri þar sem við Heiða sem er unun frömdum dægurþras, sagði frá Smáraskólaverkefninu (ef þú veist ekki hvað ég á við þá er ég undrandi) á myndakvöldi hjá Ferðafélaginu í síðustu viku og aftur í hádeginu í dag hjá á hádegisfundi rótarýklúbbs nokkurs. Svo er ég í kvöld að fara að kynna hjólaferðir á Ítalíu hjá Fjallahjólaklúbbnum....Mér finnst þetta skemmtilegt allt saman, hvað með sínu sniði. Mér finnst mjög gaman að segja frá hálendisferðaverkefni Smáraskola en það er þó tregablandið þessa dagana af því ég fer ekki í fleiri ferðir með þessum frábæru krökkum sem í þeim skóla búa sig undir lífið. En, auðvitað tekur annað við --- stundum þarf að sparka manni yfir brúna. En svo tökum við Alda á móti öllum vinum og vandamönnum, bæði fyrrverandi og tilvonandi í Cintamani búðinni á Laugaveginum á laugardaginn. Kíktu við og fáðu þér kaffi og sjáðu myndir frá Ítalíu .... og drífðu þig svo til Ítalíu að hjóla. kv. KE

bondsjornó

Nú er úti veður mjög leiðinlegt og ég efast um að jafnvel Grímur biðji sér konu í þessari tíð. Mér skilst líka að ekki sé Mjallhvít blessunin bara brjáluð út í stjúpuna heldur er hún orðin hundleið á því að allir séu alltaf núa henni lauslæti um nasir. Hún hafi ekki verið að dingla þarna með öllum þessum dvergum, kannski einum eða þremur en ekki sjö. Svona getur þjóðfræðin gersamlega farið með mann í rugl. Þorrablót þjóðfræðinema var haldið síðasta föstudagskvöld og ég held því fram að fátt sé eins skemmtilegt. Þjóðfræðinemar eru besta og skemmtilegasta fólk og þarna var stiginn vikivaki af tærri snilld - einn þjóðfræðikennarinn kvað rímur, mjööög langar og hikaði aldrei. Ég hef aldrei getað lært nokkra vísu utanað svo ég var full lotningar. Fyrirsögnin er svona vegna þess að ég ætlaði að tjá mig um Ítalíu - enda veðrið til þess - en það bíður betri tíma. Kv. KE


mér finnst lífið eitt allsherjar djók

Nei, segi nú svona bara. En mér hefur oft þótt frábært hversu mikill húmor er í kringum okkur. Baggalútur, sprengihöllin, Laddi, Tvíhöfði og allt það lið. Það er líka ótrúlegt allt þetta húmorefni í sjónvarpinu - fóstbræður, strákarnir og stelpurnar, skaupið og spaugstofan, og næturvaktin. Svo er nú öll fyndnin sem fram fer manna á milli. Húmor er eins og við vitum merkilegt, en því miður vanrækt rannsóknarefni - Hann er út um allt, manna á milli og í umhverfinu öllu. Dönsku þættirnir, Trúðurinn, er náttlega eitt enn ótrúlegt fyrirbærið - þar er húmorinn kominn á eitthvert allt annað svið - viðtalið við þá félaga í Kastljósinu var merkilegt - því að lengi var því haldið fram að ekki væri hægt að gera grín að barnaníðingum en þeir treysta sér í það. Það er svo sem vitað að það sem veldur kvíða, veldur líka hlátri, og hvað er kvíðvænlegra en...Jæja - vesgú - heil færsla og ekki minnst á hjólfákinn. Kannski að ég skrifi eins og einn brandara t.d. um mann sem datt á hjóli - gerir sig alltaf. kv. K

 

 


Ég er ekki bara hjólanörd - ég er margfaldur nörd

Þeir sem villast hér inn gætu mjög auðveldlega haldið að ég geri ekki annað en að hjóla um bæinn og Ítalíu og fjöllin og Austurríki. Það er bara alls ekki þannig - ég hef líka hjólað í Baðhúsi allra landsmanna - reyndar hætt. Svo er ég að gera margt, mjög margt, mjög skemmtilegt. Núna í augnablikinu er ég t.d. að lesa bókina ,,Rokksaga Íslands" eftir Gest Guðmundsson. Ótrúlega skemmtileg bók - og svo að henni lokinni mun ég lesa bókina ,,Eru ekki allir í stuði" eftir Doktor G. - meðfram þessu hlusta ég á íslensk dægurlög og ligg í djúpum pælingum um textana - syng samt ekki með - stundum syng ég á hjólinu en þá bara með Presley. Mér finnst t.d. að ég nái ,,Crying in the Chapel" mjög vel í rigningu. Þá líka sjást ekki tárin sem flóa bæði af aðdáun á minni eigin rödd og tjáningu Elvisar á hinni óendanlegu sorg og gleði. Mig langar að benda ykkur á fyrirlestur Rósu Húnadóttur um íslensk sjómannalög - sem haldinn verður í húsi sögufélagsins við Fischersund á miðvikdagskvöld kl. 20 - kv. KE

Jú, það er hægt

segir bandaríski blökkumannsleiðtogaefnið og það hugsaði ég einmitt á hjólfáknum í morgun þar sem ég sveif yfir flughálar svellbreiðurna og fákurinn lét eins vel að stjórn og væri hann undan Blesa frá Stóru-Gröf sem var landsþekktur gæðingur um og eftir miðja síðustu öld. Ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé betra að hafa Leonard Cohen í eyrunum frekar en Bitlana þegar færðin er svona - það er nefnilega rólyndið sem gildir og í því er ég alger sérfræðingur. Ekkert fær haggað mér nema ef veðrið er vont, bílstjórar eru með frekju, ég er of sein, eða að það sé ekki laugardagur. En að hjólaferðum erlendis - nú fer að styttast í næstu kynningu í Cintamani búðinni frábæru á Laugaveginum. Það versta er að þegar ég er þar heilan dag kaupi ég alltaf ótrúlega mikið sem ég vissi ekki að mig vantaði. En semsagt kynningin verður þann 23. þessa mánaðar og mér finnst að þið ættuð að koma, gott kaffi, fagrar myndir og við Alda erum mjög hógværar í lýsingum okkar á þessum frábæru ferðum. Guð verið með ykkur - kv. KE

Doktorsgráðan í Róm

Ég held að nú sé svo algerlega tímabært að segja frá hinu margrómaða þriggja ára plani sem endar í Róm með mikilli viðhöfn. Þessi hugmynd gerjaðist síðasta sumar og er nú fullmótuð og mun lítið ef nokkuð breytast. Þannig er að sá eða sú sem hjólar sitt fyrsta sumar frá Bolzano í Norður-Ítalíu (sjá ferðalýsingu) og til Feneyja, næsta sumar frá Feneyjum til Flórens og þriðja sumarið frá Flórens til Róm mun fá þar hina æðstu gráðu sem hægt er að öðlast í hjólreiðum um suðrænar slóðir. Við athöfnina mun aðili þessi krýndur  hinum ferhyrnda hatti sem annars bara útlendingar fá þegar þeir hafa lokið einhverju gráðum. Hjóladoktorinn mun auk þess klæðast smekklega hönnuðum hjólabúningi, fá diplomaskjal til að hengja upp í stofunni heima. Ýmislegt annað verður á döfinni sem nánar verður tilgreint siðar. Eins og glöggir lesendur sjá er ferðalýsing á þriðja og erfiðasta hluta leiðarinnar ekki kominn á vef www.uu.is en hann kemur fyrr en varir.  kv. KE


...jæja Jobbi, er þetta ekki orðið gott.

Ég hjólaði í dag sem leið lá meðfram Sæbrautinni vestur í langæðstu menntastofnun landsins. Þetta er eins og allir vita langflottasta hjólaleið höfuðborgarsvæðisins, Akranes langt í burtu, enginn fótboltavöllur sjáanlegur, sjórinn og mávarnir sem lifðu af síðustu styrjöld og miskunnarlausar skotárásir úr launsátri laugardagskvöldstjórnandans, svamla venjulega glaðir og áhyggjulausir í vestanblænum. En nú var 30 cm. þykkt hálffrosið klakalag á allri gang/hjólastéttinni og hjólfákurinn á glænýjum nagladekkjunum hafði algerlega sjálfstæðan vilja. Mávarnir horfðu, horaðir  til himins og báðu um betri tíð.  Verst var þó að á undan mér hljóp eitt lítið mannkríli og hann hljóp mun hraðar en ég hjólaði. En, þetta var samt frábært, trúið því, og þið sem eruð að velta fyrir ykkur að fá ykkur hjól, það er einmitt núna - best að gera allt strax. Þegar alvörupabbi Sússa fer að láta hlýna og skína þá ætla ég að hjóla upp Árnesbrekkuna, Kjalarnesið, Hvalfjörðinn, á Akranessskagann og aftur heim á hálfum degi, fyrir kaffi. ke

og sumarið nálgast og hjólin leika við kvurn sinn fingur

Nú finnst mér að tími sé kominn til að fara að blogga um hjólaferðir aftur - Við Alda vorum með hjólaferðakynningar um helgina og fjöldi manns kom sá og skráði sig. Mér sýnist að framboðið á hjólaferðum Úrvals-Útsýnar sé nú orðið þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Það er líka frábært hversu margir koma í svona ferðir ár eftir ár og segir það sitt um hversu frábær ferðamáti þetta er. Hvað getur svo sem verið betra en að hjóla í  stórkostlega landslagi, borða frábæran mat og vera með góðu fólki. Sjálf keypti ég mér nagladekk á minn nýja hjólfák (sjá fyrri færslur) og hef hjólað um Reykjavíkurborg og í næstu sveitirfélög í allan vetur. Nagladekki veita mikið öryggi í hálkunni og gera manni mögulegt að hjóla þótt snjór sé á gangstéttum og götum- samt sem áður væri ég til í að fara að fá auðar götur og gangstéttar, mér finnst eiginlega nóg komið. Það væri líka ekki slæmt að vera á suðrænni slóðum á stuttubuxum og ermalausum - en þess er svosem ekki langt að bíða. Kv. Kristín


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristín Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir

Um bloggið

Kristín Einarsdóttir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • fen - fló og barnabörn 186
  • ...e_en_us_320
  • ...ter_edition
  •  b 2 Feneyjar - Flórens (88)
  • ...s_88_522487

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband