Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

feminiskar beljur súpa sjálfsagt hveljur

tenerife dagur  1 og 2 047Myndin er einmitt af tveimur týpískum körlum, annar á ferðalagi hinn að selja sig.

Hreinlega stórkostleg hugmynd á þessu frábæra bloggi og LESIÐ NÚNA. Tek það fram að fyrirsögnin er stolin - þetta hefði mér aldrei nokkurntíman dottið í hug að segja

Ég las það (nei ekki í Samúel) á bloggi einu og hef heyrt svo ótrúlega oft um kvennaferðir - ég ætla að trúa þér fyrir því að ég skil ekki svona kvennaferðir, mér finnst jafnmargar konur skemmmtilegar og óþolandi leiðinlegar og mér finnst margir karlar skemmtilegir og líka óþolandi leiðinlegir. Ég get alls ekki hugsað mér að vera í einhverri kvennaferð, eða kvenna hvað sem er. En eins og allir vita finnst mörgum þetta meiriháttar og hvað er ég að tauta sem hef aldrei farið í kvennaferð og hvað þá kvennaeitthvað. En hér er mín hugmynd: Ég býð hér til karlaferðar, ég verð náttlega fararstjóri, þótt ég sé mestmegnis kona en það er af því ég var einu sinni bílasali, og telst þar með alveg til  karlanna.  Svo er ég geðveikislega stjórnsöm og get alveg hugsað mér að stjórna stórum karlahópi. Hvernig væri hjólaferð á Ítalíu með dassi af siglingu á Garda, vínsmökkun og tarantellu á pöbbum. Fyrir þessa ferð þyrfti ekki að borga nema helmingi meira en fyrir venjulegar ferðir af því að karlar hafa skilst mér helmingi meiri laun en kvennagreyin. Hvað segið þið? skráið ykkur hér:

ég er líka með hugmynd sem mun nýtast i næsta kennaraverkfalli en þori hreinlega ekki að tjá hana hér - ekki nema einhver hvetji mig til þess, ég tek hvatningu mjög vel, það er hægt að mana mig út í nákvæmlega hvað sem er, segi og skrifa hvað sem er.


það var orðið svo vont í sjóinn og allt í veseni

fen - fló og barnabörn 106 fen - fló og barnabörn 008Ég er búin að vera svoooo veik, flensuhelvíti, rétt hélt haus til að fara með barnabörnin í Borgarleikhúsið að sjá Ladda á föstudagskvöldið. Það var reyndar frábært, Snúlluskottið dansaði í stólnum af gleði með Eiríki Fjalar og frændum hans. Ég reyndar uppgötvaði það, sem er nú ekki svo merkilegt reyndar, að snúlluskottið sem er fimm ára og flottust af öllum, þekkir ekki Þórð húsvörð, Skúla rafvikja og hvað þá Saxa lækni - hún þekkir lögin  en á hennar stuttu ævi hafa þessir karaktera ekki verið áberandi. Svona er dægurmenniningin, á sér bara dagslíf eins og dægurflugan. En á morgun mun ég þeytast meðfram sjónum, vera ekki með flensu hitta þingkonu eina skemmtilega mjög, vera ekki með flensu, lesa nýjar þjóðfræðibækur, hlusta á dægurlagatexta, hitta tæknimenn, vera ekki með flensu, já hvað svo?  Myndin tengist efni bloggsins ekki en mér finnst samt rétt að minna á að nú nálgast sumarið og Feneyjar, Flórens og þá...


mannkerti og svarteyg drós, gutlandi á gítara, grátklökka slagara,

Getraun: úr hvaða texta er fyrirsögnin? verðlaun: 22 km. hjólaferð  með sjónum, sólarlag og sjávarlykt innifalin

Ég er að vinna svo ótrúlega skemmtilegt verkefni þessa dagana - ligg yfir dægurlagatextum gömlum og nýjum - tek viðtöl við skemmtilegt fólk og í gær söng meira að segja einn viðmælandinn fyrir mig, segi ykkur aldrei hver það var, enda bundin órjúfanlegum trúnaði. Annars held ég að ég sé að fá flensu sem er slæmt, er einmitt að fara með barnabarnaliðið að sjá Ladda á föstudaginn og ætla ekki að missa af því. Barnabarnastelpurnar eru miklir aðdáendur Ladda (og ég líka). Þær hlusta mjög oft á ,,Hver er sinnar kæfu smiður?" og dansa og syngja með. Það er svo merkilegt hvað það er margt skemmtilegt hægt að gera í þessu lífi, og örugglega líka í því næsta, ég er alveg að verða væmin, sem ég er reyndar alltaf og stöðugt, en reyni eins og ég get að halda því í hófi. Svo erum við að fara í ferðalag um næstu helgi, svo eru fundir með tilvonandi hjólagörpum, hlakka til, hlakka til, hlakka til. Einn áhugasamur skólamaður hringdi í mig og langaði að fræðast um skólaferðalagaverkefnið - og mér leið eins og kristniboða (held ég) sem upplifir að allt í einu er allir trúleysingjarnir farnir að biðja bænir. kv. KE hin væmna


- ég fór þaðan vísari og veikari -

San_Quentin

Ég var að hugsa þar sem ég hjólaði hægt og rólega framhjá Skólavörðustíg eitthvað – en húsið er lítið og svart, að e.t.v. væri hugmynd að bjarga þjóðarbúinu með því að byggja risafangelsi, t.d. fyrir svona þrjúþúsund manns, þá værum við með jafnmarga fanga, miðað við höfðatölu, eins og  langbestu vinir okkar í vesturlöndum nær. Þá gæti fullt af fólki fengið vinnu við að passa fangana og ríkisstjórnin mundi borga fullt af peningum fyrir að geyma fangana og láta þá verða betri eða verri eða miklu verri. Svo gætu fullt af læknirum gefið þeim pillur og það væri hægt að flytja inn mörg tonn af pillum, eða kannski frekar að búa til litla og fallega heimilisiðnaðarstaði þar semværu búnar til pillur fyrir fangana. Þetta er til dæmis hugmynd sem gæti bjargað þjóðarbúinu, og við gætum haldið áfram að láta evrurnar liggja. Svo fór ég að hugsa um lagið sem Kasskarlinn í svörtu fötunum er alltaf að syngja fyrir fangana í sankventin fangelsinu, rosa margir fangar þar, og  rosa margir fangaverðir. Voða væri nú gaman ef það væri hægt að þyngja refsingar hér á landi svo við fengjum fleiri fanga – þá gætu fleiri söngvarar farið að syngja í fangelsum – til dæmis þegar  idolið/xfactor/bandið hansbubba og það alltsaman fer að verða frekar þreytt. Svo var ég líka að hugsa um illa siðaða strákófétið sem klagaði  stórabróðurófétið sitt fyrir að rispa nýja fína hjólið sem hann hafði stolið af strákófétinu í næsta húsi. Þá sagði pabbinn; ef þú borgar fimmþúsundkall í heimilissjóðinn þá skal ég loka hann inni í kústaskáp i viku. Litla strákófétið hugsaði sig mjög lengi um en sagði svo ,,nei hann kemur bara verri og enn brjálaðri út“. Nú var pabbinn ráðalaus, hvað getur maður gert ef litla strákófétið vill ekki hefna sín almennilega, ætli hann sé hinsegin?  


því óskrifaðir bardagar skapa engin völd

dagbók 1 024Þeir undruðust stórum sjómennirnir síglápandi þegar herskipinu danska var lagt beint fyrir framan þá og ekki glætan að hægt væri að gá til veðurs. Djöfullinn danskur heyrði ég annan segja við hinn sem svaraði að bragði ,,nú lágu Danir í því". Þetta eru sjómennirnir sem réru á opnum bátum allar götur þar til fattaðist upp á vélum, þá urðu þeir að steini einmitt þegar sólin kom upp yfir landinu. (fyrirsögnin er eins og allar aðrar stolin, þessi er úr texta sprengihallarbræðranna síkátu um hestana sem hlupu á skeið - annars nenni ég ekki alltaf að vera að segja hvaðan ég stel hinu og þessu - ég er þess fullviss að e-r munu stofna söfnunarsjóð fyrir mig) k.

hvenær getum við farið upp í áttavitann?

IMG_1250[1]sagði einn snillingurinn í fimmta bekk og átti að sjálfsögðu við vitann í Gróttu. Ég var að koma úr tveggja nátta ferð með nemendum Smárskóla, hjóluðum meðfram sjónum, sextán kílómetra leið úr Kópavoginum og í Gróttu.  Fyrri morguninn vöknuðum við í snjó og eflaust hefur sumum ekki litist á að hjóla suður í sveitir en enginn kvartaði, börnin eru vön að klæða sig fyrir íslenskt veður og þegar leið á morguninn batnaði veðrið og þegar ég svo hjólaði til baka aftur með hinn bekkinn var sólin farin að skína og um kvöldið var hið fegursta veður í náttúrperlunni Gróttu. Þessar Smáraskólaferðir eru búnar að vera mikið ævintýri, en eins og önnur ævintýri tekur þetta enda og kötturinn líklega orðinn úti í mýrinni.

Eins og fugl í snöru, eins og röflandi fyllibytta, eins og ormur á öngli, ....

humarsúpan ótrúlega 001Jú, nú eru venjulegur dagarnir teknir við og hjólaferðirnar út með sjó og suður yfir heiðar. Við hjólanördahjónin hjóluðum í gær, einmitt út með sjó og þegar þéttbýlið og matarlyktarmengunin hafði náð algerum undirtökum, stöðvuðum við hjólfákana og lögðum við hlið olíunördanna - og fengum okkur humarsúpuna óviðjafnanlegu á þessum stórmerkilega stað sem myndin er af. Nú er einmitt allt út í myndum af því nú hefur hjólanördínan fattað myndasmíð á blogginu og mega hinir fjölmörgu lesendur búast við miklum myndskreytingum hér á næstu dögum eða alveg þangað til sú flensan er farin í hundana. En sem sagt súpan, og laxaspjót í meðlæti, Frakkar og aðrir útlendingar  líka að borða súpu, sitjandi á ólíutunnum, við plankaborð. Mér finnst brjálæðislega flott að það skuli vera látið gott heita hér í þessu reglugerðar- og forsjárhyggjulandi - þar sem verða að vera margir vaskar í pulsusjoppum (held ég og það er örugglega farið eftir öllum reglum í humarsúpuhúsinu) að þetta skuli ganga og biðröð útúr dyrum um hádegi....Humarsúpugerðarfólkið kallar hvert á annað - ertusofandiðaddna ...og svo framvegis. Mæli með þessu - hjóla svo pakksaddur út með sjó og framhjá herstöðinni við hafið, (þetta er getraun) yfir heiðina hjá eyðitorginu og heim. Bráðum er ég að fara að hjóla með skólakrökkunum úr suðurkjördæminu meðfram sjónum og í Gróttu - aftur til baka og aftur til baka og að lokum aftur til baka ...kv. KE

Höfundur

Kristín Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir

Um bloggið

Kristín Einarsdóttir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • fen - fló og barnabörn 186
  • ...e_en_us_320
  • ...ter_edition
  •  b 2 Feneyjar - Flórens (88)
  • ...s_88_522487

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband