ég hef ákveðið að blogga á hverjum degi

mér finnst gaman að blogga - hef bara gleymt mér undanfarið, - en ég ét hjólahjálminn ef ég blogga ekki á hverjum degi þar til ég byrja mínar hjólaferðir með ykkur öllum sem vilja um allan heiminn. og meðal annarra orða það er ýmislegt að gerast í hjólaferðamálum. En eins og stundum er sagt ,,það er ekki viðeigandi að ræða það hér og nú" en öllum steinum verður velt og allt verður uppi á borðinu og ég er enn að tala um hjólaferðir. En ég vona að ykkur sem kíkið á þetta blogg líði vel, enda nú skín sólin og þá er engin þörf að kvarta. kv.ke

Toskana - náttúra, menning og ,,chianti"

Þú situr á notalegri ölstöfu og þægileg þreyta dagsins líður úr þér. Þú finnur að þú átt skilið að gæða þér á ,,spaghetti al pesto“ og skola því niður með hinu ítalska Chianti víni. Ef þetta er staðreynd ertu án efa í hjólaferð um Toskana – hinum ítalska landslags- og menningar gimstein.


viðtöl

Eg ég væri t.d. að gera útvarpsþátt og vildi tala við t.d. 8 manns - þá verð ég auðvitað að passa að hafa fjórar konur og fjóra karla, jafnmarga skólagengna og minna skólagengna, jafnmarga utan af landi og úr þéttbýlinu, jafnmarga unga og eldri og gamla, ríka og minna ríka, jafnt úr öllum stjórnmálaflokkum og þegar ég er buin að þessu þá er ég hætt við að gera þáttinn

hjól og álftir

Þessa dagana hjóla ég úr Laugarnesinu og aftur heim á hverjum degi, stundum með viðkomu  í efstaleitinu. Að hjóla meðfram sjónum í myrkrinu er magnað, svartur sjór og öldur og svo lækjargötuna, framhjá tjörninni með hvítum álftum og öðrum fiðurfénaði eins og úr einhverjum allt öðrun heimi á kolsvörtu vatninu. Hver man núna eftir taugastrekkingnum sem allt í einu kom upp í sumar af því að tjörnin var svo skítug. Merkilegt að vatn sem fuglarnir kúka í skuli óhreinkast - alveg ótrúlega subbulegt. En nú eru nemendurnir mínir að fara í próf - þessi hópur svo frábær, eins og hóparnir í fyrra og þar áður. En hver með sínum hætti, fyndin og skemmtileg, og auðvitað áhugasöm. Efast ekki um gott gengi þeirra í prófinu en vona samt að þau séu dáltið stressuð, annars væri þetta nú bara leiðinlegt, fyrir þau meina ég. Prófstress hefur lengi verið vanmetið fyrirbæri. k


kærleiksblómin spretta

Var að ljúka við að setja saman þátt um kærleika, ást og umhyggju sem verður útvarpað á ras eitt  klukkan 1400 á aðfangadag. Því miður síðasti þátturinn sem ég geri í bili.... vantar víst einhvern pening inn í útvarpsapparatið, en síðar mun ég gera fleir þætti enda finnst mér það mjög skemmtilegt og einhvernveginn hentar það mér vel. Hugmyndir sem hægt er að koma í verk og kveðja svo...Hugmyndin að þessum þætti fæddist þegar ég las bók eftir Paul Coelho sem heitir Hugarfjötur og er reyndar margþætt en ég kaus að taka einn þráðinn úr bókinni og fjalla um ástina. og sú umfjöllun teygði svo úr sér í umhyggju og kærleika... Vona að þetta komi ásættanlega út. Ég talaði við fullt af fólki sem lætur sér annt um samferðafólkið ..Þátturinn byrjar á þessari setningu úr bókinni: Það er ekki lífið sem skiptir máli heldur ferðalagið, svoítið skrítin setning en í rauninni segir húm það sama og að það er ekki vatnið sem skiptir máli ef enginn drekkur það, enginn fiskur syndir í því og það vökvar ekki gróðurinn. Lífið skiptir ekki máli ef þvi er ekki lifað - ef það er ekki ferðalag. En sem sagt fer í stúdíóið í fyrramálið og þá fæðist barnið sem allir sem vilja fá svo að heyra í á aðfangadaginn sjálfan. Ég er líka oft svo þakklát fyrir öll þessi tækifæri sem ég hef fengið, alger tilviljun að ég fór að gera þætti fyrir útvarpið, og svo margt sem þetta ferðalag mitt hefur fært mér upp í hendurnar. .....

hólar og heimferðin

Ég og afinn fórum norður að Hólum í afmæli tveggja barnabarnastúlkubarna. Krista Sól er alveg að verða sex ára - og Eydís Anna er alveg að verða þriggja ára. Anika Ýrer svo að verða 11 ára rétt strax sama daginn og Jökull Breki verður líka 11 ára. Á laugardagskvöldinu fengum við að vera með i jólahlaðborgði, nemenda, kennara og starfsfólks Hólaskóla og var það hin besta skemmtun. Skemmtiatriðin skemmtileg og alltaf merkilegt að sjá hversu gaman nemendum þykir að gera grín að kennurunum. Þjóðfræðinemarnir væru t.d. ekki vandræðum með að greina þarna bakhtíska karnivalstemningu.....En eftir að hafa sagt frá ferðaverkefninu á fyrirlestri hins ósýnilega félags, spjallað við Skúla og Kobba um framtíðina og ferðirnar - tekið háalvarlegt viðtal við Kobba um umhyggju, ást og kærleika - keyrðum við suður yfir heiðar í kolniðamyrkri og horfðum á stjörnur og jólaljós á bæjunum. En  bráðum mun ég hitta gamla skólafélaga mína frá Reykjum í Hrútafirði til að halda upp á enn eitt afmælið og þegar ég horfði á ljósin við skólann, gamla fallega skólahúsið, hugsaði ég einusinni sem oftar hversu mikið ég á þessum stað að þakka. En þó fyrst og fremst bekkjarfélögum mínum í tossabekknum og landsprófsnördunun (kennararnir voru þarna aðallega til að finna út hversu lítinn tíma ég hafði gefið mér til að læra utanbókar, ár og firði, eða sagnir) - allt þetta frábæra fólk - hvað hefði orðið um mig á öðrum stað og öðrum tíma?


húmörinn er soldið eins og blóðmörinn

bestur súr - þetta var nú nafnið á einum snilldarfyrirlestrinum sem fluttur var á humorsþinginu huggulega á hólmavík. Þar kom saman, án gríns, fyndnasta fólk landsins. Ekki án gríns heldur ÁN gríns. Aldrei hefur mér þótt eins gaman að hlusta á fyrirlestra, hver öðrum fróðlegri og skemmtilegri. En mér til mikilla vonbrigða og jafnframt undrunar komst minn humör ekki einu sinni í úrslit í brandarakeppni sem haldin var um kvöldið, hvað þá að undirrituðu hafi unnið til verðlauna og var þó mín kímnisaga með afbriðgum fyndin, vel flutt og fróðleg. En hvað um það, það gengur bara betur  næst. Þorsteinn Guðmundsson, fyndnin sjálf, kom sá og sigraði með óborganlegum fyrirlestri sínum um júkvæðni. (Gott að stólarnir voru ekki bólstraðir, segi það nú bara) En nú er að fara að undirbúa hina árlegu Gróttuferð þjóðfræðinnar. Ég segi ekki hér á þessu opinbera bloggi hvenær af því þá mundi náttlega allt fyllast af aðdáendum þjóðfræðinnar, nóg er nú að Albert karlinn sveimi um og yfir. kv. KE

hver er hann þessi Gunnar I Birgisson???

Já,sæll, þannig er að um helgina verður húmorráðstefna á Hólmavík (offolpleisis) þar munu fluttir verða margir mjög merkir fyrirlestrar, Oring mun ræða brandarafræði, Proppé mun ræða húmor í Íslendingasögum og bera saman við grótesku í Fóstbræðrum og Strákunum, Einars mun ræða um Áramótaskaupið (mjög fróðlegur og skemmtielgur lestur hér á ferðinni) Sigurjón mun ræða um humor i söfnum, sérstaklega reðursafninu og heitir hans lestur ,,frá kálfshúðum til forhúða" nú Jón Jónsson ræðir um humor jaðarhópa, sérstaklega flökkukinda og kallar sinn lestur,,smælað framan í smælingjana" Um kvöldið er svo hátíðakvöldverður og þar mun Þorsteinn Guðmundsson fyndnin sjálf, stíga á stokk og flytja okkkur fyrirlestur um hegðun og atferli. Þá verður líka brandarakeppni, bjórkassi í verðlaun - ef einhver vill bjór er hugmynd að leggja inn pöntun hjá undirritaðri sem stefnir á sigur - kann svo ótrúlega, ótrúlega fyndna brandara og sigurinn er vís... kv. KE

svo eitt haust fór mærin með / mjólkurbíl um leið og féð

Haldiði ekki nema það hafi verið troðfullt í Húsinu í gær, meira að segja staðið frammi á gangi. Veit bara ekki hvernig mér leið - Heiða er náttlega alvön svona móttökum en mér líður dáltið hissa - en GAMAN. Heiða söng um villtar endur, vertekkiaðhorfa og tvígilda Tótu af tærri snilld. og nú erum við að fara í ammæli og gefum náttlega hjálm, hvað annað, hjólanördarnir samir við sig. kk


pöbbarölt og pólverjinn

Já, hér kemur framhaldið, þori varla að setja þessa sögu á blað af því að réttsýnu fólki gæti mögulega dottið í hug að mér hafi misheppnast uppeldi barnanna minna sem er ekki raunin. Ég fullyrði að engin börn eru betur alin upp en mínir synir, það sem aflaga fór var skólunum og kennurunum þeirra að kenna. punktur. En sem sagt litli drengurinn sem staddur er í landinu Ind í borginni Del eða reyndar í hennar Mosfellsbæ - fór með Tibetanum, nokkrum frá Afríku og ég held einhverjum innfæddum á pöbbarölt á jólunum þeirra sem voru bara núna um daginn. Einhver íslens/pólskur húmor var þarna í gangi því að ekkert þótti Pólverjanum skemmtilegra né fyndnara en að kalla til betlarahópsins sem fylgdi þeim hvert fótmál, já hann kallaði sem sagt: Halló (pólskur hreimur) halló, þessi hérna stóri er íslenskur milljónamæringur, talið við hanna" Nú og betlarahópurinn lætur náttlega ekki segja sér slíkt tvisvar og gerðist margfalt aðgangsharðari við Íslendingskvikmyndaleikstjóraefnið en nokkru sinni fyrr og pólverjinn hló og hló - og litla drengnum Þótti þetta ekki fyndið fyrr en hann hrelldi móður sína aldraða með sögunni daginn eftir. ....en´nú er ég að fara í elsta skóla Kópavogs að gista þar í nótt með hópi sex ára barna. Alltaf gaman, þau eru svo spennt, og foreldrarnir eru svolítið stressaðir að skilja litlu ljósin eftir í skólanum heila nótt og þetta er nú bara gaman. Á morgun erum við Heiða að fara að syngja (ekki ég) og tala (ég) um dægurlagatexta í Húsinu á Eyrarbakka - gaman, gaman, hver hefur meira gaman en ég, ég bara spyr. kv. ke

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristín Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir

Um bloggið

Kristín Einarsdóttir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • fen - fló og barnabörn 186
  • ...e_en_us_320
  • ...ter_edition
  •  b 2 Feneyjar - Flórens (88)
  • ...s_88_522487

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband